Leikfélagið Fljúgandi Fiskar var stofnað af Þóreyju Sigþórsdóttur, leikkonu árið 1998 með það að markmiði að kanna leikhúsformið út frá nýju sjónarhorni.

Verkefni

Andaðu eftir Duncan Macmillan í leikstjórn Þóreyjar Sigþórsdóttur, þar sem hún vakti athygli fyrir djarfa nálgun í leikstjórn. Leikarar Hera Hilmarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Frumsýnt í Iðnó í janúar 2017 og Hera Hilmarsdóttir var tilnefnd til Grímunnar sem besta leikkona í aðalhlutverki.

Verkefnið var styrkt af Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar.

Fyrsti vísirinn að Fljúgandi Fiskum var einleikurinn Skilaboð til Dimmu eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Hann var fluttur í dagskrá með leiknum ljóðum á tjaldi; „Brotabrot… af íslenskum skáldkonum“.

Önnur verk leikfélagsins eru:

Hótel Hekla eftir Anton Helga Jónsson og Lindu Vilhjálmsdóttur í leikstjórn Hlínar Agnarsdóttur. Í þeim „ljóðleik“ fléttuðu höfundarnir Anton og Linda ljóðum eftir íslensk ljóðskáld við hefðbundinn texta og reyndu á þolmörkin á milli ljóðs og leikhúss þar sem hversdagsleiki leikhússins rann saman við súrrealískan heim ljóðsins. Sýningin Hótel Hekla var styrkt af Norræna Menningarsjóðnum, framleidd í samvinnu við Norræna Húsið í Reykjavík og frumsýnd þar á sænsku. Hótel Hekla var síðar sýnd á íslensku í Kaffileikhúsinu í Hlaðvarpanum í Reykjavík. Sýningin fór í leikferðalag til Svíþjóðar og Finnlands og var á fjölunum í Abo’s Svenska Teater í Abo og í Pero’s Teater í Stokkhólmi. Þessi leikhús voru einnig meðframleiðendur að verkinu.

Multi-media sýningin Medea byggð á leikriti Evrípídesar. Leikgerð fyrir tvo leikara í leikstjórn Hilmars Oddssonar. Þar rann saman í eina heild tónlist, kvikmynd og sviðsleikur. Medea var frumsýnd í Iðnó og var hluti af Reykjavík Menningarborg árið 2000. Medea var studd af Evrópska Menningarsambandinu Culture 2000. Medea var sýnd á Lakeside Art Center í Nottingham og ICA í London, Englandi og á Tampere Off-Festival í Tampere Finnlandi.

Pin It on Pinterest

Share This