Um Þórey Sigþórsdóttur

Þórey Sigþórsdóttir útskrifaðist sem leikari frá Leiklistarskóla Íslands árið 1991. Haustið 2012 lauk hún MA gráðu með láði í Þróuðum leikhúsaðferðum Advanced Theatre Practice frá the Royal Central School of Speech and Drama í London.

Þórey lauk MA með fyrstu einkunn í Hagnýtri Menningarmiðlun Háskóla Íslands 2014. Lokaverkefni hennar útvarpsleikritið „Lífshætta” vakti mikla athygli þegar það var frumflutt í Bíó Paradís 6. janúar 2014 og í Útvarpsleikhúsi Rásar 1  RÚV 7.  september sama ár.

Leikhús og kvikmyndir

Þórey hefur unnið sem leikkona við Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið og með sjálfstæðum leikhópum.

Af leiksýningum má nefna The Gerpla Drive í leikstjórn Arn-Henrik Blomqvist kynningarstikla , “mammamamma” í leikstjórn Charlotte Böving og einleikinn „Ódó á gjaldbuxum” eftir Ásdísi Thoroddsen Ódóstikla1. Hún hefur leikið í fjölmörgum útvarpsleikritum um tíðina, síðast má nefna leikritið „Ástand” eftir og í leikstjórn Ásdísar Thoroddsen 2011. Af kvikmyndaverkefnum má nefna kvikmyndina „Kaldaljós” í leikstjórn Hilmars Oddssonar.

Listræn stjórnun og framleiðsla

Árið 1998 stofnaði Þórey leikfélagið Fljúgandi Fiska sem listrænn stjórnandi þess leikhóps framleiddi hún tvær sýningar ásamt því að leika í þeim

„Hótel Heklu” eftir Anton Helga Jónsson og Lindu Vilhjálmsdóttur, leikstjórn Hlín Agnarsdóttir, og „Medeu” eftir Evrípídes, leikgerð fyrir multi-media sýningu eftir Þóreyju og Ingu Lísu Middleton, leikstjórn Hilmar Oddsson.

Leikstjórn sjónvarp og útvarp

Þórey hefur unnið ýmis verkefni fyrir  sjónvarp og kvikmyndir. Hún leikstýrði m.a. „Brotabrot” af íslenskum skáldum – leikin ljóð fyrir sjónvarp RÚV 1999 og „Lífshættu” fyrir Útvarpsleikhús RÚV. Þórey var þáttastjórnandi „Pílunnar” skemmtiþáttur fyrir börn á RÚV ásamt Eiríki Guðmundssyni 1996-97. Þórey var með tónlistarþátt á útvarpsstöðinni „Stjörnunni” 1987.

Erlent samstarf og verkefnisstjórn

Í kjölfarið af námi sínu í CSSD í London 2012 er Þórey hluti af leikhópnum Head of a Woman sem hefur skapað tvo einþáttunga með aðferðum samsköpunar, sýndir m.a. í leikhúsinu Chelsea Theatre í London , Norðurpólnum Seltjarnarnesi og á leiklistarhátíð í Bratislava.

Þórey tók þátt í að þróa og leika í „The Gerpla Drive” leikstjóri Arn Henrik Blomqvist. „The Gerpla Drive” var leikið á ensku og sýnt í Mariehamn, Reykjavík, Þórshöfn, Hamri, Osló og Stokkhólmi 2013.

Leiksýningin Medea var samstarf milli leikfélagsins Fljúgandi fiska, leikfélags í Nottingham og leiklistarskólans í Tampere. Sýnt í Iðnó Rvík, ICA London og á Off-Tampere leiklistarhátíðinni í Tampere.

Leiksýningin Hótel Hekla leikin á sænsku og íslensku, var samstarf milli Svenska Teater Åbo, Åbo, Teater Pero Stokkhólmi og Fljúgandi fiska og var styrkt af Norræna menningarsjóðnum 1998.

Árið 2014 var Þórey ráðin verkefnisstjóri “Ég get sjáðu mig” á vegum leikskólans Laufskála. Þetta er þróunarverkefni Laufskála og markmiðið er innleiða aðferðir leiklistarinnar í starfssemi Laufskála, annars vegar með því að mennta starfsfólk leikskólans til þess og hins vegar með samstarfi við listamenn. Verkefnið er innblásið af starfsemi   „Starcatchers” í Edinborg http://www.starcatchers.org.uk/ og er unnið í samvinnu við framkvæmdatjóra þess Rhonu Mathiesen sem kom til landsins og hélt fyrirlestra í Laufskálum og Listaháskóla Íslands í tengslum við verkefnið.

Samstarf er einnig hafið við Helgu Arnalds leikbrúðu og myndlistarkonu.

„Ég get sjáðu mig” er styrkt af frá Þróunarsjóði skóla og frístundaráðs Reykjavíkur og Sprotasjóði.

Önnur verkefni

Þórey er viðurkenndur NGT raddþjálfari frá The Voice Studio International London.  Hún kenndi raddþjálfun í fjögur ár við Leiklistardeild Listaháskóla Íslands, einnig hefur hún haldið mörg námskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þórey hefur sótt margvísleg námskeið til að kynna sér ólíkar aðferðir í þjálfun leikarans, af því má nefna verkefnið Lear Landscapes í samvinnu við Lumparlab, Álandseyjum.

 

Pin It on Pinterest

Share This